Þriðja Tómasarmessan í Breiðholtskirkju, tjaldkirkjunni í Mjódd, á þessu ári verður sunnudagskvöldið 26. mars kl. 20. Þema messunnar n.k. sunnudag verður: “Samfélag trúaðra“. Sr. Ólafur Jóhannsson prédikar og Þorvaldur Halldórsson leiðir tónlistina ásamt sönghópi.
Tómasarmessan hefur unnið sér fastan sess í kirkjulífi borgarinnar, en slík messa hefur verið haldin í Breiðholtskirkju síðasta sunnudag í mánuði, frá hausti til vors, allt frá haustinu 1997. Messan einkennist af fjölbreytilegum söng og tónlist, mikil áhersla er lögð á fyrirbænarþjónustu og sömuleiðis á virka þátttöku leikmanna. Stór hópur fólks tekur jafnan þátt í undirbúningi og framkvæmd Tómasarmessunnar, bæði leikmenn, djáknar og prestar.
Framkvæmdaaðilar að þessu messuhaldi eru Breiðholtskirkja, Reykjavíkurprófastsdæmi eystra, Kristilega skólahreyfingin, Samband íslenskra kristniboðsfélaga, Félag guðfræðinema og hópur presta og djákna.