Sunnudagskvöldið 22. október var flutt sálmadagskrá fjögurra kirkjukóra í Blönduóskirkju ásamt jazztríói. Þar var blandað saman gömlu og nýju og sett í nýstárlegan tónlistarbúning. Fluttir voru sálmar eftir Martein Lúter, passíusálmalag í útsetningu Smára Ólasonar og nýir sálmar úr bókinni Sálmar 2013 í ýmsum útsetningum og með spunaívafi tríósins.
Þessi dagskrá var í tilefni af 500 ára afmæli siðbótar Marteins Lúters og var hún styrkt af nefnd þjóðkirkjunnar um siðbótarafmælið og einnig af Héraðssjóði prófastsdæmisins. Kórarnir sem sungu voru kirkjukórar Blönduóskirkju, Hólaneskirkju á Skagaströnd, Hvammstangakirkju og úr Melstaðaprestakalli og stjórnendur voru organistarnir Eyþór Franzson Wechner, Hugrún Sif Hallgrímsdóttir og Pálína Fanney Skúladóttir. Margrét Bóasdóttir, söngmálastjóri þjóðkirkjunnar skipulagði dagskrána. Jazztríóið var skipað Vigni Þór Stefánssyni, píanóleikara, Þór Breiðfjörð söngvara og Jóni Rafnssyni á kontrabassa og æfðu þeir með sameinuðum kórum frá hádegi á sunnudag. Sóknarprestarnir séra Sveinbjörn Einarsson, séra Bryndís Valbjarnardóttir, séra Magnús Magnússon og séra Guðni Þ. Ólafsson sáu um kynningar og fluttu fróðleiksmola úr Borðræðum Lúters. Alls sungu um 50 söngvarar og áheyrendur í þéttsetinni kirkjunni klöppuðu flytjendum lof í lófa og uppskáru 2 aukalög.