Út er komin bókin: Þrír litir þjónustunnar: Að uppgötva og nýta náðargjafir. Útgáfan er samstarfsverkefni Samtaka náttúrulegrar safnaðaruppbyggingar á Íslandi og Skálholtsútgáfunnar. Hún er prentuð í fjölprenti í Þýskalandi, samtímis á tugum tungumála, sem heldur niðri prentkostnaði þó að mikið sé um skýringarmyndir í lit. Höfundurinn er þýski guðfræðingurinn, Christian A. Schwarz, en þýðandi Vigfús Ingvar Ingvarsson.
Náttúruleg safnaðaruppbygging (NSU) er að slíta barnsskónum hérlendis en nokkur undanfarin ár hafa söfnuðir átt þess kost að taka þátt í slíku verkefni.
Efni á íslensku hefur þó verið takmarkað. Árið 2011 kom út bæklingurinn: Grunnatriði náttúrulegrar safnaðaruppbyggingar. Áður eða 2002 kom út bókin Náttúruleg safnaðaruppbygging – Átta grunnþættir kröftugrar kirkju.
Þessi nýja bók fjallar einmitt um einn þessara grunnþátta – eða gæðamarka – heilbrigðra safnaða, þjónustu sem tekur mið af náðargjöfum. Þetta er ein af átta bókum Schwarz um þessi gæðamörk.
Náttúruleg safnaðaruppbygging vinnur að heilbrigði safnaða með könnunum á stöðu þessara átta gæðamarka og aðstoð og ráðgjöf við að fjarlægja hindranir fyrir þeirri grósku sem Guð vill gefa.
Söfnuður er hópur af fólki og engrar uppbyggingar er að vænta í söfnuði nema fólk byggist upp og þjóni hvert öðru og þurfandi heimi af meiri mætti, trúmennsku og visku og samskiptin verði kærleiksríkari. Þess vegna beinir bókin athyglinni að uppbyggingu einstaklinga en þó alltaf með félagslegt samhengi í huga.
Náttúruleg safnaðaruppbygging byggir á rannsóknum á þúsundum safnaða víða um heim, af ýmsum kirkjudeildum og í margvíslegu menningarlegu samhengi. Hún leggur áherslu á heilbrigði safnaða fremur en tölulegan vöxt. Hún tekur mið af líkingum Jesú um vöxt í ríki náttúrunnar sem læra megi af. Bóndinn sáir og vökvar en hann reynir ekki að knýja fram vöxt með því að toga í kornöxin. Ekki er vænst aukins vinnuframlags leiðtoga safnaða en að kröftum sé í meira mæli beint að þeim verkefnum sem mestum ávexti skila.
Þó að bókin sé fyrst og fremst hugsuð til nota í samhengi við safnaðaruppbyggingu þá geta einstaklingar vissulega haft gagn af fróðleik hennar um náðargjafir (í víðri merkingu) – um mikilvægi þess að þekkja sínar gjafir og samstarfsfólks síns og leiðir til að uppgötva betur þessar gjafir. Áhersla er á mikilvægi þess að fólk sé „á réttri hillu“ í allri þjónustu. Þannig líður fólki best og skilar mestu í starfi.
Eldri útgáfur bókarinnar hafa selst í mjög stórum upplögum víða um heim og höfundurinn er vel þekktur á meðal þeirra sem vinna að safnaðaruppbyggingu.
Bókin fæst í Kirkjuhúsinu, Laugavegi 31, og kostar kr. 2500.