Dómkirkjan ætlar að efna til Slökkviliðsmessu sunnudaginn 9. október nk. kl. 11:00.
Tilefnið er 220 ára afmæli kirkjunnar, en skrúðhús hennar var fyrsta slökkvistöð Reykjavíkur og var þá nefnt Sacristie- og Spröjtehus. Þessu hlutverki gegndi skrúðhúsið frá 1827-1886. Þegar Dómkirkjan var stækkuð 1848 og núverandi skrúðhús byggt, var slökkvitækjunum ætlað það rými, sem nú geymir snyrtingu og forstofu. Af þessu tilefni er boðið til sérstakrar guðsþjónustu með þátttöku slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna. Fulltrúar þeitta munu lesa texta við messuna og fluttar verða bænir og þakkargjörð fyrir slökkviliðs- og sjúkraflutningamenn og starf þeirra í þágu bæjarbúa. Karl Sigurbjörnsson predikar og þjónar fyrir altari. Dómkórinn og organisti er Kári Þormar. Kjartan Örn Styrkársson spilar á trompet. Sunnudagaskólinn á kirkjuloftinu.
Gamlir slökkvibílar og búnaður verða til sýnis við kirkjuna og eftir messu býður Kirkjunefnd kvenna Dómkirkjunnar til messukaffis í Safnaðarheimilinu við Lækjargötu 14. Allir velkomnir.